Samtök áhugafólks um spilafíkn- SÁS – voru stofnuð 28. september 2019 af hópi einstaklinga sem öll hafa persónulega reynslu af sjúkdómnum fjárhættuspilafíkn, annað hvort sem sjúklingar eða sem aðstandendur.
Við, sem komum að stofnun SÁS, teljum að hægt sé að gera mun meira en gert er í dag í sambandi við fræðslu um sjúkdóminn, forvarnir gegn sjúkdómnum og síðast en ekki síst varðandi meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem kljást við sjúkdóminn og aðstandendur þeirra.
Við höfum öll reynslu af því hversu skelfilegur sjukdómurinn getur verið og viljum því leggja okkar af mörkum til þess að forða öðrum frá honum og jafnframt að hjálpa öðrum sjúklingum og aðstandendum þeirra til þess að takast á við sjúkdóminn, skilja hann og öðlast trú á því að það sé hægt að lifa góðu lífi með sjúkdómnum.
Fjárhættuspil hafa fylgt manninum svo lengi sem ritaðar heimildir ná til og sem dæmi um þá skaðsemi sem getur fylgt fjárhættuspilum, bönnuðu Rómverjar til forna alla veðmálastarfsemi innan veggja Rómarborgar.
Það er þó ekki markmið okkar að ganga svo langt að banna fjárhættuspil. Það teljum við ekki vera raunhæft markmið. En í ljósi fjölmargra rannsókna sem sýnt hafa fram á að 2 – 3% einstaklinga séu útsett fyrir sjúkdómnum, teljum við að full ástæða sé til þess að takmarka aðgengi að fjárhættuspilum og draga úr sýnileika þeirra – einkum og sér í lagi gagnvart ungmennum og helst að minnka framboð fjárhættuspila í íslensku samfélagi.
Reynslan hefur sýnt að langt leiddir sjúklingar eru í mikilli sjálfsvígshættu og við þekkjum öll einhvern sem hefur tekið eigið líf – einvörðungu vegna fjárhættuspila. Því teljum við það ekki réttlætanlegt að óheft aðgengi sé að fjárhættuspilum – aðeins vegna þess að þau styðji góðan málstað. Er einhver málstaður svo góður að við séum tilbúin til þess að fórna fyrir hann mannslífum?
Í söngtexta Ómars Ragnarssonar segir: “Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott“. Hið sama á við um sjúkdóminn, því hægt er að halda honum niðri og með réttri meðferð að öðlast enn betra líf heldur en ef hann hefði aldrei komið til. Það hafa mörg okkar fengið að upplifa og viljum hjálpa öðrum til þess sama.
Í stjórn SÁS sitja;
Alma Hafsteinsdóttir, formaður SÁS
Sigurbergur Ármannsson, gjaldkeri
Svava Benediktsdóttir
Örn Sverrisson
Kristján Jónasson
Kristín Adda Einarsdóttir
Ingimar Örn Jónsson
SÁS – samtök áhugafólks um spilafíkn, eru samtök einstaklinga sem vilja;
Stuðla að forvörnum gegn sjúkdómnum spilafíkn.
Fræða almenning, heilbrigðisstéttir, fjölmiðlafólk og stjórnvöld um sjúkdóminn.
Byggja upp eða stuðla að því að komið verði á fót meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem eru með sjúkdóminn og aðstendendur þeirra.
Að stuðla að, eða standa að, rannsóknum sem tengjast sjúkdómnum spilafíkn, hvort sem það er rannsókn á sjúkdómnum sjálfum, orsökum hans, sjúklingum sem eru haldnir spilafíkn, þeim einstaklingum sem eru í áhættuhópi, aðstandendum spilafíkla eða samfélaginu í heild sem og þeim úrræðum sem framangreindum einstaklingum stendur til boða.