„Þessi fíkn er ólýsanleg. Það er svo rosalega erfitt að stoppa hana, en það er hægt. Þetta snýst ekki um peninga. Þetta snýst um að fóðra fíknina. Í staðinn fyrir að innbyrða eitthvað til að gera það verður maður að setja pening í maskínu.“
Þetta segir karlmaður á höfuðborgarsvæðinu sem hefur glímt við spilafíkn í um þrjátíu ár. Hann vill ekki koma fram undir nafni og því verður hann kallaður Jónas héðan í frá.
Fimm þúsund kallarnir hurfu
Jónas á konu og börn. Hann er í góðri vinnu, vel gerður og klár. Jónas fær hins vegar ekki að fara með fjármál heimilisins. Launin hans eru ekki lögð inn á hans eigin reikning og honum eru skammtaðir peningar, einfaldlega út af því að honum er ekki treystandi með fjárráð. Hann segir að spilafíknin hafi fyrst byrjað sem fikt í sjoppukössum þegar hann var ungur. Þegar hann var um tvítugt hafði fíknin tekið yfir og eina sem stoppaði Jónas í því að spila var ef hann átti ekki pening.
„Þegar ég var kominn í fulla vinnu man ég eftir því að nokkrum dögum fyrir mánaðarmót var spenningurinn orðinn svo mikill að fá pening til að spila. Ég vissi hvað var í nánd og það komst ekkert annað að í hausnum á mér. Ég varð alveg viðþolslaus. Áður fyrr þraukaði ég ekki útborgunardaginn heldur fann afsökun til að hætta fyrr í vinnu til að fara að spila,“ segir Jónas. Hann lýsir spilasögu sinni sem tímabilum þar sem skiptust á skin og skúrir. Þessi tímabil eiga eitt sameiginlegt – á þeim öllum reyndi Jónas hvað hann gat til að róa spilafíknina.
„Mér tókst að eyða dobíu af peningum í sjoppukössum en þegar að Háspenna opnaði var kominn staður þar sem fimm þúsund kallarnir hurfu á ótrúlega stuttum tíma. Þetta snerist ekki um að vinna. Ef ég fékk vinning þá vissi ég bara að ég gæti spilað lengur. Ef ég átti bara þúsund kall þá varð ég að spila fyrir hann. Þá lagði ég lágt undir til að spila lengur, í rauninni bara til að róa fíknina. Stundum hljóp ég út í hádegishléi í vinnunni til að spila og tók sprett aftur til baka þegar að matartíminn var búinn.“
Heiðarleiki afmarkaður við vinnuna
Jónas segist hafa reynt að setja sér einhver viðmið varðandi spilakassana. Að hann ætlaði bara að spila fyrir ákveðið háa upphæð.
„Ég tók ákveðna upphæð með inn á staðinn en skildi restina eftir úti í bíl. En þá hljóp ég kannski tuttugu sinnum út í bíl. Ég vissi alveg að ég var svaðalegur fíkill en samt hélt ég virkilega að ég gæti náð peningunum til baka. Ef ég næði þessu til baka þá kæmist þetta ekki upp. Sem virkur spilafíkill sem á fjölskyldu viltu ekki að þetta komist upp. Þú vilt ekki særa þína nánustu enn einu sinni,“ segir Jónas og heldur áfram. „Þetta er ákveðinn blekkingarleikur. Maður heldur virkilega að maður geti falið þetta. Ég var með ákveðið leikrit í huganum. Mér gekk vel í vinnunni og var hress og kátur. Þegar leikritið var búið að standa yfir í átta klukkutíma í vinnunni var ég algjörlega búinn á því heima fyrir og gat ekki haldið leikritinu áfram. Líkaminn var til staðar á heimilinu en hausinn var allt annars staðar. Hann var að spá í hvernig ég gæti komið mér út úr þessum vandræðum eða hvernig ég ætti að útskýra þetta eða hitt. Lygin tekur yfir. Hún verður manni það eðlislæg að maður byrjar að ljúga um eitthvað sem skiptir engu máli. Ég tel mig vera heiðarlegan mann en heiðarleikinn þegar ég er virkur í spilafíkn er afmarkaður í kringum vinnuna. Þá finnst mér allt í lagi að stela frá fjölskyldunni, það er að segja að koma ekki með pening inn fyrir heimilið, því ég vildi frekar spila en að borga reikninga eða kaupa mat. Siðferðið var bundið við að gera allt rétt og pottþétt út á við en fauk svo út í veður og vind þegar kom að mínum nánustu.“
Á tímabili var hann með tvö hagkerfi – fjölskylduhagkerfið í hægri vasanum en spilahagkerfið í þeim vinstri.
„Stundum gat verið að vinstri vasinn væri fullur af peningum en enginn peningur í hægri vasanum. Þá var ekki möguleiki að færa á milli. Ég átti í engum vandræðum með að færa peninga úr fjölskylduhagkerfinu í vinstri vasann en ekki öfugt. Aldrei. Þegar ég var töluvert yngri gat ég verið með hundrað þúsund kall í vinstri vasanum en við áttum ekki fyrir mat. Mér datt ekki til hugar að taka úr hagkerfinu mínu og setja það í fjölskylduhagkerfið.“
Líftryggingin sem aldrei varð
Jónas er jákvæður að eðlisfari og er þakklátur fyrir það. Hann rífur sig ekki niður vegna fortíðarinnar og snýr meira að segja sumum sögum upp í grín, þó hann ítreki að spilafíkn sé ekkert grínmál.
„Fyrir mörgum árum var ég búinn að koma mér í rosalega vond mál. Þá hugsaði ég að þetta væri komið gott. Ég ætlaði að láta mig flakka. En mér fannst ég verða að skilja eitthvað eftir mig þannig að ég ákvað að líftryggja mig. Á samningum sá ég klausu um að líftryggingin yrði ekki greidd út ef aðili fyrirfer sér innan eins árs. Jæja, þá yrði ég að þrauka í eitt ár. Að endingu borgaði ég ekki af tryggingunni því ég var að spila. Típískur spilafíkill að vera með rosalegar pælingar en geta svo ekki einu sinni borgað af tryggingunni. Ég geri oft svona grín að sjálfum mér en þetta er samt dauðans alvara.“
Jónas hefur ekkert spilað síðan að spilakassarnir lokuðu vegna COVID-19 í núverandi bylgju og finnur ekki fyrir sterkri löngun í það. Hann gerir sér hins vegar fyllilega grein fyrir að hann er tæpur. Hann er rólegur að eðlisfari en ef spilakassar opna aftur gæti hann misst sig, eins og gerðist síðasta sumar þegar að spilakassar opnuðu eftir fyrstu bylgju COVID-19. Hann telur mikilvægt að loka spilakössum, sérstaklega í söluturnum.
„Ég er enginn kjáni að ímynda mér að lokun spilakassa bjargi öllum. Aftur á móti eru nokkrar stórar sjoppur á höfuðborgarsvæðinu með mörgum kössum. Ég hef setið þar inni að spila og sé fimmtán, sextán, sautján ára gamla stráka, og jafnvel yngri, gjóa augunum í hvað þetta er. Þegar maður er á þessum aldri og sér mann koma með miða í afgreiðsluna og fá pening í staðinn þá hugsar maður auðvitað að þessi maður sé alltaf að „græða“ í kössunum. Maður heldur að þetta sé svona auðvelt. Ég er mjög á móti þessum spilakössum. Þegar ég sé hóp af ungum strákum spila í sjoppukössum sé ég hvernig einn eða tveir hegða sér öðruvísi en hinir. Þá fæ ég sting í hjartað af því að ég sé mig í þeirra sporum fyrir einhverjum árum. Þetta hefur svo mikil áhrif á þessum aldri. Ég segi burt með spilakassa úr sjoppum og alls staðar þar sem ungmenni komast. Þetta á ekki að sjást.“