„Vandamálið eru ekki við – vandamálið eru þau,“ segir ung kona á höfuðborgarsvæðinu sem á barn á leikskólaaldri með manni sem er spilafíkill. Hún vill ekki koma fram undir nafni til að vernda fjölskyldu sína og verður hér eftir kölluð Fjóla.
Skapvondur og orðljótur
Fjóla kynntist barnföður sínum fyrir nokkrum árum síðan. Á þeim tíma var hann í bata, bæði í spilafíkn og vímuefnafíkn. Fjóla segir samband þeirra hafa einkennst af miklu andlegu ofbeldi en þau hættu saman á síðasta ári. Hún segir fíkn hans í spil og vímuefni haldast í hendur en bætir við að hún hafi reynt að halda sambandinu gangandi barnsins vegna.
„Ég hef oft verið komin með nóg af sambandinu sem einkennist af mikilli vanlíðan, lygum og óöryggi og öllu því sem fylgir virkum fíkli. Fíkillinn er snillingur í að selja þeim sem standa þeim næst þá hugmynd að þetta muni allt lagast með hinum og þessum aðferðum. Hann fór nokkrum sinnum í meðferð á meðan við vorum saman en féll alltaf aftur eftir smá tíma. Þegar hann kom úr meðferð síðasta vor var ég orðin ágætlega sett og átti varasjóð. Hann bað mig um lán. Ég hef lánað honum áður en þarna vissi ég að ég vildi ekki gera það aftur. Þannig að ég sagði nei. Þá snappaði hann á mig með ýmsum ásökunum sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Stuttu síðar var hann farinn að hegða sér undarlega, orðinn skapvondur og orðljótur í samskiptum við mig. Þá var hann greinilega byrjaður aftur að spila. Hann brýtur mig niður aftur og aftur og veldur mér svo miklum vonbrigðum. Hann er rosalega veikur einstaklingur og líklegur til alls þegar hann er í neyslu og svífst einskis. Ég get ekki boðið barninu mínu upp á svona líf,“ segir Fjóla.
„Hann svífst einskis“
Barnið er mestmegnis hjá Fjólu en fer til föður síns aðra hvora helgi. Fjóla segir að barnið sé hins vegar lítið hjá honum þá daga – meira hjá ömmu sinni og afa eða öðrum fjölskyldumeðlimum.
„Innst inni væri ég til í að hann væri til staðar fyrir barnið okkar, að ég gæti treyst honum. Hann gerir aldrei neitt með barninu okkar því hann er óhæfur til að gera alla þessa „venjulegu hluti“,“ segir Fjóla. Þegar að barnsfaðir hennar er kominn í vond mál spilar hann fyrir allt að hálfa milljón á viku. Eins og áður segir breytist skapið og það bitnar einna helst á Fjólu.
„Hann segir ógeðslega hluti við mig og gagnrýnir mig út í eitt, sem ég tek auðvitað inn á mig. Hann svífst einskis. Það versta við að vera aðstandandi er að spilafíklar eru eins og rándýr. Þeir bulla svo mikið í manni að maður byrjar að trúa lyginni. Manneskjan virðist meina allt sem hún segir en svo er þetta bara lygi. Það brýtur mann svo rosalega niður.“
Fjóla vill hafa barnsföðurinn í lífi sínu en veit ekki hve lengi hún getur það með þessu áframhaldi.
„Ég hef trú á því góða í fólki. Ef hann vinnur í sínum málum og fer á fundi í GA samtökunum þá getur hann losnað undann spilafíkninni og lifað góðu lífi. Ég þekki einstaklinga sem hafa fetað þessa leið og lifa fallegu og innihaldsríku lífi. Eftir allt sem ég hef gengið í gegnum með honum upplifi ég mig mjög óörugga og hann er gjörsamlega búinn að brjóta allt traust. Barnsfaðir minn er góður maður inn við beinið. Hann er bara svo veikur að hann nær ekki að sýna það.“