„Þetta byrjar á einu skipti þar sem maður eyðir meira en maður ætlaði. Skiptin verða fleiri og fleiri og upphæðirnar hærri og hærri. Allt í einu eru spilakassar búnir að taka völdin í lífinu þínu.“
Þetta segir Karitas Valsdóttir, rúmlega þrítug kona sem hefur glímt við spilafíkn um nokkurt skeið. Hún hefur verið spilalaus í tæp fjögur ár, en vegna spilafíknar missti hún allt – hjónabandið fór í rúst, hún lét frá sér forræði yfir börnunum sínum og reyndi sjálfsvígs.
Flótti frá viðbjóðslegri æsku
„Þegar ég var yngri fann ég aldrei spilalöngun þegar ég var frá kössunum, en þegar að kassarnir voru fyrir framan mig þá helltist þessi löngun yfir mig. Ég varð að fara. Þetta er svo spennandi í fyrstu. Svo kemur að því að þetta hættir að vera gaman,“ segir Karitas. „Ég byrjaði á því að setja mér leikreglur. Að ég myndi ekki gera hitt og þetta. Aldrei taka lán, aldrei eiga VISA kort, aldrei fara úr vinnu til að spila. Það gekk alveg í langan tíma en það kemur að því að spilafíkill eyðileggur leikreglurnar sínar. Fer yfir línuna. Og línan færist lengra og lengra í burtu þannig að maður fer aftur og aftur yfir hana. Smám saman missir maður rétta hugsun. Þegar ég var sem veikust breyttist ég í manneskju sem ég er ekki og vil ekki vera. Það finnst mér ógeðslegasta við þessa fíkn.“
Karitas er fullviss um að áföll í æsku hafi ýtt undir spilafíknina.
„Spilakassar voru ákveðinn flótti. Ég hef gengið í gegnum viðbjóðslega hluti. Ég var misnotuð, mér var nauðgað, þannig að ég var mjög reið sem ungmenni. Spilakassar voru staður þar sem ég gat komist burt frá öllu. Þar sem ég þurfti ekki að hugsa um neitt, starandi á maskínu. Þetta gaf mér frið frá öllu öðru. Í lokin var þetta orðið meiri flótti en skemmtun. Ég var orðin uppgefin því ég var í feluleik allan daginn og með kvíðahnút í maganum yfir því hvort ég gæti reddað pening til að spila meira. Þetta var rosalegur rússíbani.“
Svaf ólétt á dýnu til að geta spilað
Karitas varð ólétt sautján ára og staðráðin í að hætta að spila eftir að barnið kæmi í heiminn. Barnsfaðir hennar var líka spilafíkill á þeim tíma.
„Ég var að vinna í eldhúsi á meðgöngunni þannig að við lifðum á matarafgöngum. Við misstum húsið okkar þegar ég var ólétt þannig að við fluttum í bílskúrinn hjá frænku minni. Ég var að drepast í bakinu, sofandi á dýnu í gluggalausum bílskúr. Þetta gerðum við svo við gætum spilað. Við þénuðum nóg til að leigja húsnæði en við tókum þessa ákvörðun og lögðum þetta á okkur til að geta spilað. Ég vann eins og brjálæðingur á þessum tíma og það er sorglegt að hugsa til þess hvað ég lagði mikið á mig fyrir eitthvað sem fór í spilakassa á tveimur dögum,“ segir Karitas. Fleiri, slæmar minningar leita á hana.
„Ég get aldrei fyrirgefið mér fyrir að hafa ekki heimsótt dauðvona ömmu mína á spítala. Ég hafði tvö til þrjú skipti til að heimsækja hana en ég var í spilakassa og gleymdi mér. Það var rosalega sárt. Ég missti af því að geta kvatt ömmu mína út af fjandans leik.“
„Mig langaði að deyja“
Það hjálpar henni að muna hversu ömurlegt líf hennar var þegar að spilafíknin heltók hana.
„Á meðan ég man það allra versta þá fer ég ekki aftur að spila. Um leið og ég hætti að muna þessa hluti og hætti að segja fólki frá því, þá býr hugurinn til glansmynd af þessu lífi og áður en ég veit af er ég komin fyrir framan spilakassa, að spila öllu frá mér.“
Ekki löngu eftir að Karitas eignaðist sitt fyrsta barn náði hún níu spilalausum árum. Hún kynntist öðrum manni, gekk í hjónaband og eignaðist tvö börn til viðbótar. Hún segist einfaldlega hafa orðið kærulaus. Fannst hún ekki þurfa að mæta á fundi hjá GA samtökunum. Fannst hún ekki þurfa að vinna í sínum málum. Á aðeins nokkrum mánuðum fór líf hennar hratt niður á við.
„Ég féll í fjóra til fimm mánuði og eyðilagði hjónabandið og hætti að eyða tíma með börnunum mínum. Ég reyndi að fara eins oft út í spilakassa og ég gat. Ég vissi að ég myndi tapa öllu, samt gat ég ekki hætt. Ég hafði enga stjórn lengur. Undir lokin hætti ég að fela þetta og fékk æðisköst. Hótaði manninum mínum og var góð í að búa til bombu heima svo ég gæti rokið út í brjálæði og farið að spila. Eftir þessa nokkru mánuði var ég full af vonleysi, skömm og reiði. Hvernig gat ég komið svona fram við fólkið sem ég elskaði mest? Spilafíkill er sjálfum sér verstur. Hann tekur aðra með sér niður.“
Karitas reyndi að fremja sjálfsvíg einu sinni en þáverandi maður hennar kom að henni.
„Mig langaði að deyja. Ég var búin að brjóta sjálfa mig niður. Ég vissi hvaða áhrif spilafíknin hafði en mér fannst ég ekki geta breytt neinu. Mig langaði bara að enda lífið. Ég er rosalega hrædd við dauðann en samt þráði ég ekkert meira þegar ég var komin á þennan stað. Ég trúði því í alvöru að það væri best fyrir alla ef ég færi,“ segir Karitas. Í dag líður henni vel. Hún er í skóla, hefur hug á að læra félagsfræði, er í góðu sambandi við börnin sín og bjargar kanínum í frístundum. Henni finnst auðveldara að halda sig frá spilakössum út af COVID-19 og vonar heitt og innilega að kössunum verði lokað til frambúðar.
„Þetta er stærsta fíkn framtíðarinnar. Næsta mál á dagskrá er að loka þessum fjárans kössum. Við myndum bjarga svo mörgum. Þarna úti er fólk sem gæti átt mörg góð ár án þess að spila ef kössunum er lokað. Náð að vinna sig upp og verða hluti af fjölskyldu. Spilin taka nefnilega allt frá manni.“