„Sem barn var ég mjög eirðarlaus og tengdi lítið. Mig vantaði alltaf eitthvað kikk og fann það í alls konar, allt frá sykri í að kveikja í sínu,“ segir Ágúst Már Garðarsson, kokkur, sem oftast er kallaður Gústi. „Fyrsta minningin mín af spilum var í ferðalagi með foreldrum mínum. Við fórum í Botnsskála í Hvalfirði og þar voru tveir kassar; gamli veggkassinn þar sem maður skaut pening í raufar og gömlu kassarnir með rauðu tökkunum. Kassinn með raufunum var það sem náði mér. Ég fékk klink hjá foreldrum mínum og fékk að prófa. Ég var átta eða níu ára og hugsaði að ég gæti orðið góður í þessu. Að ég væri með einhvern hæfileika eða náðargáfu sem myndi hjálpa mér að sigra kerfið – vinna pening. Það er manni selt í hverjum einasta kassa og þessi trú að ég hefði þennan hæfileika var gegnum gangandi á mínum spilaferli.“
Spilaði í laumi
Gústi var æstur í veðmál á milli manna á unglingsárunum en spilafíknin þróaðist ekki yfir í alvarlegt vandamál fyrr en upp úr tvítugu. Þá flutti hann til Akureyrar og eyddi dögum saman í spilakössum á vídjóleigu þar sem vinur hans vann.
„Á þessum tíma, eftir hrun Berlínarmúrsins, var mikið atvinnuleysi og þetta var í raun fyrsta kreppan sem ég upplifði. Ég fékk ekki vinnu strax og spilakassarnir fylltu í tómarúmið. Hægt og rólega magnaðist spilafíknin og sprakk út þegar ég var 22 eða 23ja ára gamall,“ segir Gústi. Þá var hann komið með sitt eigið fyrirtæki á Akureyri og með peninga á milli handanna.
„Þá fór ég í laumi í spilasali því það er ekkert kúl við þetta. Maður veit að þetta er mjög glatað þó maður sé orðinn ánetjaður. Þarna er verið að safna peningum fyrir gott málefni með því að níðast á veiku fólki. Það fer engin heilbrigð manneskja inn á þessa staði. Ég hef aldrei séð eðlilegan mann ganga inn í spilasal, setja þúsund kall í kassann, vinna og ganga brosandi út aftur. Það vill engin eðlileg manneskja fara inn á þessa staði. Þetta síðan ágerðist og ágerðist og þegar fyrirtækið sem ég rak endaði í þroti út af öðrum ástæðum upplifði ég mikið niðurbrot.“
Vistaður með morðingjum
Gústi byrjaði að flytja á milli bæjarfélaga og upp hófst nokkurra ára kafli, frá 25 ára til 31 árs, þar sem spilafíknin þróaðist á versta veg.
„Spilakassarnir urðu minn felustaður. Ég var klukkutímum og dögum saman í spilakössum og gat minna sinnt vinnu, kom með minni peninga inn á heimilið, átti í vandræðum með að borga leigu og var alltaf blankur,“ segir Gústi og bætir við að ýmis áföll á lífsleiðinni hafi gert spilafíknina verri, til dæmis þegar að hann og þáverandi sambýliskona eignuðust andvana dóttur árið 2001. Þau fluttu síðar til Noregs og enn togaði spilafíknin í Gústa. Í Noregi voru engir spilasalir eins og tíðkast hér heldur spilakassar á börum og verslunum víðast hvar. Árið 2004 eignaðist Gústi son með þáverandi sambýliskonu og komst á hálfgerða endastöð í spilafíkn. Þá bjó hann í Molde í Noregi og eignaðist veitingastaðinn sem hann vann á.
„Þetta var besti veitingastaðurinn í bænum og í Molde var mikil Íslendingadýrkun. Einn dag sat ég og horfði á Evrópumótið í fótbolta og horfði á Grikki spila við einhverja þjóð. Eftir fyrri hálfleik hugsaði ég að þetta gríska lið myndi aldrei fá á sig mark þannig að ég gekk yfir götuna og tippaði á að Grikkir yrðu Evrópumeistarar. Sem svo gerðist og kom öllum í opna skjöldu þannig að ég vann einhverjar milljónir. Þá spilaði ég aggresívt frá morgni til kvölds. Þá hugsaði ég að nú væri kominn meðbyr – þetta væri allt að koma í spilamennskunni. Nokkrum vikum seinna var bókmenntahátíð til heiðurs Bjørnstjerne Bjørnson, Halldórs Laxnes þeirra Norðmanna, í bænum og ég var fenginn í hóp til að skipuleggja galakvöldverð fyrir rithöfunda og heiðursgesti. Í kvöldverðinum var Hans Blix, fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar og vopnaeftirlitsmaður Sameinuðu þjóðanna í Írak. Mín sýn á heiminn var orðin svo brengluð að ég taldi að Hans Blix væri eini maðurinn í heiminum sem segði sannleikann. Þarna var hann mættur og ég var að elda fyrir hann. Fleiri teikn á lofti að nú væri minn tími kominn,“ segir Gústi og heldur áfram.
„Einum og hálfum mánuði seinna var veitingastaðurinn minn gjaldþrota. Ég var búinn að spila fyrir allan peninginn. Ég átti máttlausa tilraun til sjálfvígs og endaði inn á öryggisgeðdeild rétt fyrir utan bæinn, umkringdur stórhættulegum glæpamönnum og morðingjum. Barnsmóðir mín flúði til Íslands með strákinn okkar á meðan ég dvaldi á geðdeild í tvo mánuði. Eftir það var ég fluttur til Kristianssund á geðdeild og í spilafíklameðferð. Í þeirri meðferð sátu tveir hlutir í mér – annars vegar upptökur úr hitamyndavél sem sýndu heila kókaínfíkils og spilafíkils hlið við hlið sem sýndu að það kviknar á sömu heilastöð þegar að kókíanfíkillinn fær sér kókaín og spilafíkillinn spilar. Þá skildi ég að þetta er efnafræðilegt vandamál – ekki aumingjaskapur. Þetta er sjúkdómur. Þetta er heilabilun. Þetta er ekki út af því að ég er vondur eða heimskur eða latur. Brestirnir halda spilafíkninni gangandi en spilakassarnir valda boðefnavímu sem ég fæ ekki úr neinu öðru.“
Eins og píranafiskur
Eftir meðferðina í Noregi flutti Gústi heim og var ráðinn yfirkokkur á fínum veitingastað í Reykjavík. Árið 2005 var hann orðinn mjög veikur og ári síðar var hann rekinn úr vinnu.
„Skuldirnar uxu. Þetta varð þyngra og þyngra. Innheimtubréfin streymdu inn um lúguna. Ég laug að konunni minni, laug að atvinnurekendum. Það stóðst ekki neitt. Lygi eftir lygi eftir lygi og mikill vandi að muna hverju ég var búinn að ljúga og að hverjum,“ segir Gústa. Það haust fór hann, barnsmóðir hans og sonur þeirra í helgarferð til Kaupmannahafnar til að reyna að lappa upp á sambandið sem stóð á brauðfótum út af spilafíkninni.
„Við ákváðum að bæta við einum degi og hún og sonur okkar ákváðu að leggja sig á hótelinu. Ég var búinn að sjá spilasal rétt hjá og týndist þar í nokkra klukkutíma. Hún var löngu vöknuð þegar ég rankaði við mér og fullt af „missed calls“ á símanum. Ég gekk út af spilasalnum og varð vitni að árekstri. Ég þurfti auðvitað að ljúga einhverju að konunni minni og fékk hina fullkomnu lygi upp í hendurnar. Að ég hefði orðið vitni að árekstri og þurft að vera vitni hjá lögreglunni. Það var auðvitað haugalygi því ég labbaði bara í burtu.“
Þegar heim var komið kom örlagaríki dagurinn. Kornið sem fyllti mælinn – bæði hjá Gústa og barnsmóðurinni. Barnsmóðir Gústa var þá búin að taka öll kort af Gústa og hélt utan um peningamál. Hún fékk flensu og sendi Gústa út í Bónus með debetkortið. Gústi fór rakleiðis í Kringluna, setti soninn í pössun í Ævintýralandi og arkaði inn á Kringlukrána að spila.
„Ég var í algjörum tryllingi, eins og píranafiskur, og spilaði fyrir öll launin okkar og maxaði VISA kortið. Á klukkutíma og korteri var allt farið. Ég spilaði í þremur kössum í einu og fékk engan vinning. Síðan sótti ég son minn í Ævintýralandið og langaði bara að drepa mig. Ég vissi að þetta yrði síðasta skiptið sem ég spilaði og þetta er síðasta skiptið sem ég hef spilað. Ég kom heim, eldaði góðan mat, tók til og var eins og draumur alla helgina. Síðan fór hún í vinnuna greyið á mánudeginum og sá í heimabankanum að það var allt farið. Hún byrjaði að hringja í mig á fullu og senda skilaboð. Ég sat í bílnum í marga klukkutíma og reyndi að gera upp við mig hvort ég ætti að tala við einhvern eða drepa mig. Það endaði á því að ég hitti spilaráðgjafa í Síðumúla og fór í framhaldinu inn á Vog og á minn fyrsta fund hjá GA samtökunum. Ég brotnaði alveg niður. Ég slapp þann 8. október árið 2006 og hef ekki spilað síðan. Mig hefur ekki langað til að spila síðan. Það er búið að bjarga lífi mínu.“
Versta útgáfa af fjárhættuspilum
Gústi telur rangt að reka spilakassa á Íslandi í núverandi mynd.
„Ég er gallharður stuðningsmaður þess að lögleiða vímuefni og er á því að það ætti ekki að banna neitt. Þar stangast ég á við sjálfan mig. Fjárhættuspil eru ólögleg á Íslandi. Þau eru bönnuð. Það er fullt af fólki sem tippar bara um helgar, spilar póker einstöku sinnum eða kaupir happdrættismiða. Fólk sem stundar einhvers konar fjárhættuspil skaðlaust. Þegar við komum að spilakössum þá eru þeir leyfðir undir því yfirskini að Rauði Krossinn og Háskóli Íslands njóti góðs af. Þessir spilasalir eru í mínum huga líkt og ef heróín væri ólöglegt og það væri herbergi þar sem bara heróínfíklar væru látnir kaupa heróín til að styrkja gott málefni. Við vitum að þeir eru að deyja. Við vitum að þeir eru að tapa öllu en erum tilbúin til að ganga á móti þeirri vitneskju. Þessi mynd er kolröng – alveg eins og spilakassar. Ég er búinn að eyða vikum, klukkutímum, mánuðum í spilakössum og þetta er ekkert nema eymd. Ég er ekki tilbúinn að samþykkja þetta sem fjáröflunarleið. Þetta eru ekki frjáls framlög. Þetta er ekki fjárhættuspil til dægradvalar. Þetta er einfaldlega versta útgáfan af fjárhættuspilum sem til er og því miður fílaði ég hana.“