„Ég vil ekki að neinn gangi í gegnum svona. Ég er ekki stoltur af því að vera spilafíkill en ég er spilafíkill. Ég er meðvitaður um það, en lífið hefur upp á svo margt annað að bjóða.“
Þetta segir karlmaður sem ekki vill láta nafn síns getið sem hefur glímt við spilafíkn frá unga aldri. Hann verður hér eftir kallaður Gunnar.
„Ég var ekki nema sjö eða átta ára þegar ég var að henda peningum í vegg í harki með öðrum krökkum, ómeðvitaður um hvaða áhrif það myndi hafa síðar meir. Síðan byrjaðist ég að laumast í vasa að stela klinki frá foreldrunum til að setja í kassana. Ég var um tíu ára aldur þegar ég byrjaði að stunda tíkallakassana. Mér fannst það rosalega gaman. Stundum vann ég. Það voru ekki miklir peningar en fyrir tíu ára strák voru þetta miklir peningar.“
Fannst hann vera á réttum stað
Á unglingsárunum spilaði Gunnar ekkert í kössunum en um tvítugt byrjaði hann í billjard þar sem var mikið veðjað. Hann stundaði líka pílukast þar sem var ávallt spilað upp á pening. Svo liðu árin og inni á milli komu tímabil þar sem Gunnar veðjaði mikið á ýmislegt, til dæmis íþróttir, og spilaði í spilakössum.
„Þar sem var veðmál var ég tilbúinn að taka þátt. Mér fannst þetta rosalega spennandi. Síðan komu Rauða Kross kassarnir með ávaxtaröðunum. Rauðir, gulir og grænir takkar. Þeir áttu hug minn allan.“
Sem ungur maður spilaði Gunnar líka póker, tapaði oft stórum upphæðum en vann einnig oft stórt. Þær upphæðir stöldruðu stutt við og fóru í að fjármagna meiri veðmál. Á þeim tíma voru spilakassarnir ekki orðnir að því vandamáli sem þeir áttu eftir að verða í hans lífi.
„Svo kom að því að ég fór aftur í kassana. Ég var orðinn kvæntur maður og búinn að eignast barn. Þá fór ég á kaf í spilakössunum. Ég spilaði mikið í pókerkössum því mér fannst þeir rosalega skemmtilegir. Háspennukassarnir heilluðu mig aldrei og spilaði ég nær eingöngu í sjoppukössunum. Samt sem áður náði ég að spila rassinn úr buxunum og rúmlega það. Það furðulega var að í restina var ég ekki að eltast við vinninginn. Ég var bara að spila. Mér fannst ég bara vera á réttum stað þegar ég var fyrir framan kassann.“
„Það er til fólk sem finnst gott að þú ert til“
Árið 2004 lenti Gunnar harklega á botninum.
„Ég var búinn að spila aleigunni minni í burtu og var tilbúinn að yfirgefa þetta jarðneska líf. Ég var búinn að undirbúa það allt saman og gera alls konar ráðstafanir. Lífið var bara svart. Fólkið í kringum mig áttaði sig á hvað var í gangi og ég var lagður inn á geðdeild í þrjár vikur. Eftir það fór ég í meðferð á Vogi. Ég hét mér því þegar ég kom í meðferð og sá hvað var mikið af veiku fólki þar að þangað myndi ég aldrei aftur fara. Og ég hef staðið við það.“
Gunnar hefur því verið spilalaus síðan árið 2004. Þann árangur þakkar hann samtökunum GA (Gamblers Anonymous) og stuðningi frá fjölskyldu sinni.
„Þegar ég fór inn á geðdeild þá gaf systir konunnar minnar mér bók þar sem hún hafði skrifað ljóð. Það endaði á þessum orðum: Það er til fólk sem finnst gott að þú ert til,“ segir Gunnar og kemst við þegar hann rifjar upp þennan tíma. „Þetta var ofboðslega erfiður tími. Ég óska engum að ganga í gegnum þetta. Spilavíti er ekki spilavíti – það er helvíti. Það tekur allt. Ekkert skilið eftir. Þetta kallar fram alla verstu eiginleika mannsins. Ég tel líka að GA hafi bjargað lífi mínu. Fyrsti GA fundurinn minn var svakalega erfiður. Hann var svo erfiður að ég komst ekki á hann. Eiginkona mín keyrði mig á hann. Ég beið þar til hún fór og svo þorði ég ekki inn. Skömmin var svo mikil. Ég gat ekki ímyndað mér að nokkur maður gæti litið svona aumingja augum, en fyrst og fremst erum við öll bara fólk sem vill lifa góðu lífi. Ég er búinn að vera mjög duglegur í GA og alltaf í þjónustu í minni deild sem ég hef byggt upp. Það gefur mér mikið. Spilafíkn er bara sjúkdómur og fundirnir í GA eru mitt meðal. Ég þarf að taka það.“
Hætti að spila og byrjaði að græða
Gunnar segist eiga yndislegt líf í dag en það hefur kostað mikla sjálfsvinnu.
„Ég hef byggt líf mitt upp hægt og rólega. Í dag lifi ég rosalega góðu lífi. Ég trúi á æðri mátt og tala mikið við Guð. Þegar ég var að spila var ég hátekjumaður en það dugði ekki til. Það var alveg sama hvað ég þénaði mikið, það dugði ekki til. Ég náði samt að spila frá mér aleigunni og var margar milljónir í mínus. Þegar ég hætti að spila eignaðist ég allt mitt aftur. Þegar ég var virkur spilafíkill ætlaði ég að eignast allt og gera allt. Ég ætlaði að verða milli. Svo eldist ég og er frá þessu og sé að ég þarf ekki þetta allt. Þegar ég hætti að spila þá byrjaði ég að græða.“