„Ég var níu ára þegar mér var réttur kollur svo ég næði upp í spilakassann í sjoppunni. Tíu ára var ég orðinn háður og var alla daga í spilakössum,“ segir Georg Friðgeir Ísaksson.
Ekki leið á löngu þar til Georg var byrjaður að falsa ávísanir til að geta dvalið löngum stundum í spilasölum.
„Spennan og adrenalínið þegar maður vinnur var ekki aðalatriðið. Ég var lagður í einelti í æsku og í spilakössunum kynntist ég nýjum hópi af fólki sem tók mér vel. Þar var ekkert einelti í gangi. Ég fékk að vera einn af hópnum og það var líka spennandi,“ segir Georg. Foreldrar hans reyndu ýmislegt til að beina honum á aðra braut, en án árangurs.
„Foreldrar mínir skildu þegar ég var ungur og ég þurfti að sjá um mig sjálfur og ala mig sjálfur upp. Það var reynt að loka mig inni á unglingaheimilum og senda mig til útlanda en það þjónaði engum tilgangi. Ég vildi bara gera þetta.“
„Á þeim tíma þurfti ekki að brjótast inn í bíla því þeir voru allir opnir. Þá voru ávísanaheftin annað hvort uppi í skyggninu eða í hanskahólfinu þannig að ég gekk í það. Og slapp þar til ég varð sautján eða átján ára. Þá fékk ég þriggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir ávísanafals sem var endir á frekar döprum glæpaferli,“ segir Georg og brosir í kampinn.
Spilafíknin alltaf sterkust
Georg vann síðan fyrir sér í nokkur ár til að fjármagna spilafíknina. Hann vann í verslun í þrettán ár – megnið af drykkjuferlinum. Meðfara spilafíkninni ánetjaðist Georg áfengi og vímuefnum.
„Ég hætti að drekka og nota hugbreytandi efni árið 1996. Á undan því átti ég tvö ár sem voru ein samfelld neysla. Þá var ég byrjaður að nota önnur efni og pælingin var að byrja að selja fíkniefni til að fjármagna spilafíknina. Síðan fór ég að nota vímuefnin sem ég ætlaði að selja og það virkaði ekki. Mér fannst of gott að drekka og nota fíkniefni og fylleríin fóru að verða þrír til fjórir dagar. Dílerinn minn var orðinn frekar þreyttur á mér. Ég fékk dóp frá honum á föstudegi til að selja og komst ekki með peningana til hans á sunnudegi því ég þurfti að stoppa í Háspennu á leiðinni. Þetta gerði ég fjóra sunnudaga í röð og fyrir rest þurfti ég að taka yfirdrátt í Búnaðarbankanum til að borga dílernum. Það var í síðasta sinn sem ég lenti í svona vandræðum,“ segir Georg. Hans líf einkenndist af því að spila alla daga vikunnar og drekka um helgar, en helgarnar urðu alltaf lengri og lengri. Hann spilaði ekki aðeins í spilakössum heldur spilaði hann einnig bingó í þrettán ár, póker, getraunir og fleira.
„Ég var alltaf með sama hópnum í bingó – fólk sem ég hef þekkt síðan 1983. Megnið af því fólki er líklega spilafíklar. Það eru ekki allir í spilakössunum en megnið af þeim er það. Þegar mest var spilaði ég bingó sex kvöld í viku,“ segir Georg. Þó hann hætti að drekka og dópa skildu leiðir við spilafíknina ekki.
„Spilafíknin hefur alltaf verið sterkust og jókst frekar þegar ég varð edrú. Veðmál virka þannig að „venjulegt fólk“ getur alveg eytt einum fimm þúsund kalli í kössum og gengið í burtu. Spilafíkill hins vegar hættir oftast ekki fyrr en hann er búinn með allan peninginn. Ég var alltaf að reyna að hætta inni á milli og stundum náði ég nokkrum spilalausum mánuðum. Árið 1992 kynntist ég GA samtökunum (Gamblers Anonymous) og var inn og út úr þeim samtökum í átta ár. En ég gat yfirleitt ekki verið spilalaus á milli funda þó það væri bara einn fundur í viku. Ég mætti samt alltaf á fundina, en var kannski ekki í þessu af heilum hug.“
Ákveðinn friður frá grimmum raunveruleika
Í sumar verða sjö ár síðan Georg spilaði síðast í spilakassa. Hann lýsir fíkninni eins og kókaíni – spilafíknin blundar alltaf í honum og verður alltaf í blóðinu. Hann sækir fundi og hefur unnið í 12 sporunum til að halda sér í lagi.
„Ég tek bara einn dag í einu. Síðast var ég spilalaus í tíu ár þegar ég féll þannig að þetta er ekki komið. Ég þarf að halda vöku minni stanslaust til að fara ekki aftur af stað,“ segir Georg en spilakassaheimurinn hefur togað í hann þegar að allt annað bregst.
„Í október 2009 var ég búinn að vera spilalaus í tæp tíu ár. Ég veit ekki hvað gerðist nákvæmlega í október árið 2009. Það var ekkert merkilegur dagur. Ég bara byrjaði að spila aftur og leið eins og ég væri kominn heim. Ég þekki þennan heim svo vel þannig að þegar að raunveruleikinn er grimmur er þægilegt að fara inn í þennan heim. Það er ákveðinn friður. Frí frá umhverfinu og umheiminum. Ég var kominn í frekar slæm mál eftir hrun því fyrir hrun var ég með veltukort og yfirdrátt hjá SPRON. Í hruninu fór SPRON á hausinn og Arion Banki tók yfir. Innheimti öll lán. Þá skuldaði ég milljón og það var pressa á mér að laga fjárhæðina. Spilafíknin gerir það aldrei. Það er ein stærsta blekking spilafíkninnar,“ segir Georg, sem hætti að spila fimm árum síðar, eða þann 2. júlí árið 2014.
„Þann 1. júlí fékk ég útborgað. Ég var búinn með peninginn fyrir klukkan 17 í Háspennu. Það fór allt á fimm klukkutímum og þá átti ég eftir að borga allt. Þetta voru ekki fyrstu mánaðarmótin sem þetta gerðist en þarna fékk ég niðurbrot. Gafst upp og leitaði mér hjálpar daginn eftir,“ segir hann og lýsir hræðilegu hugarástandi spilafíkils. „Það er eins og góð kókaínvíma að vinna og lélegt heróíntripp að tapa. Vegna spilakassa hef ég upplifað versta niðurtripp lífs míns. Ég tapaði einhverjum hundruðum þúsunda á tveimur sólarhringum og eyddi þremur dögum í svartasta þunglyndi sem ég hef upplifað. Þetta er gríðarlegt álag á taugakerfið og allan líkamann. Þetta er ekkert grín. Ég þekki fjölmarga spilafíkla sem hafa fengið hjartaáfall við kassana. Þetta er alvöru fíkn.“
Rústar heilu fjölskyldunum
Georg hefur þrisvar sinnum orðið gjaldþrota út af spilakössum og engu öðru. Í dag er hann öryrki eftir að hafa verið greindur með ADHD árið 2015 og kæfisvefn árið 2017. Hann vinnur nú að því að koma heilsunni í lag meðfram því að skrifa lokaritgerð í lögfræði við Háskólann á Akureyri. Hann býr hjá móður sinni og hefur verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði í sjö ár. Jólin 2018 komst hann á núllið og skuldar engum neitt.
„Það er ágætt að vera kominn á hreint en sorglegt að vera fimmtugur og eiga ekkert nema tölvuna, rúmið og skrifborðsstólinn,“ segir hann. „Spilafíknin er grimm. Hún hirðir allt,“ bætir hann við. Hann hefur aldrei gengið í hjónaband og á engin börn. „Það var aldrei neinn tími til að eignast neitt. Spilamennska er einmenningsíþrótt,“ segir hann, en ekki er laust við að ákveðin eftirsjá ríki í huga hans og hjarta yfir því að hafa ekki komið börnum á legg. Hann er fullviss um að Íslendingar yrðu bættari með það ef spilakössum yrði lokað til frambúðar.
„Spilakassa ætti að fjarlægja svo þeir eyðileggi ekki fleiri líf. Fólk gerir sér enga grein fyrir hve eyðileggingarmátturinn er mikill. Þetta rústar ekki bara lífi spilafíkilsins heldur allrar fjölskyldunnar.“