„Ég var í kringum níu eða tíu ára gömul þegar að pabbi minn byrjaði að spila í spilakassa. Ég bjó ein með pabba og hann umgekkst mikið vin sinn sem var spilafíkill,“ segir ung kona sem ólst upp með föður sem er spilafíkill. Hún vill ekki koma fram undir nafni til að vernda fjölskyldu sína og verður hér eftir kölluð Sigríður.
Sigríður segir að faðir sinn hafi bæði spilað í spilasölum og sjoppukössum. Þar sem hún bjó með föður sínum fór hún oft með honum þegar hann var að spila.
„Þetta byrjaði mjög sakleysislega. Ef að pabbi fékk bónusleik eða reyndi að dobbla upphæðina þá bað hann mig stundum um að ýta á einhvern takka. Mikið fannst mér gaman þegar ég ýtti á „réttan“ takka, þar sem pabbi var svo ánægður með mig. Allt í einu var ég farin að fá hrós og fagnaðarlæti frá pabba og vini hans fyrir það eitt að það hittist bara þannig á að kassinn var að gefa. Ekki skemmdi það gleðina þegar ég var kölluð lukkudýrið. Skemmtilegustu dagarnir voru þegar mér var réttur þúsund krónu seðill sem ég mátti eiga því ég var nú lukkudýrið,“ rifjar Sigríður upp. Hún segist í raun aldrei hafa varið almennilegum tíma með föður sínum nema umkringd spilakössum.
„Svona gekk þetta í einhvern tíma þangað til að það var orðin hefð fyrir því að þegar við pabbi kíktum í Gullnámuna fékk ég 150 krónur og mátti velja mér einn kassa til að setja í. Ég valdi alltaf sama kassann þar sem hann gaf oft 100 krónur og þá gat ég ýtt aftur á takkann,“ segir Sigríður og heldur áfram. „Það leið ekki á löngu þar til að spilakassarnir fóru að skemma líf mitt verulega mikið. Það var sjaldan til matur heima. Ég fór oftast annað til að borða. Þegar ég talaði um að ég vildi flytja til mömmu minnar sagði pabbi alltaf við mig að hann myndi missa íbúðina því hann þyrfti að borga tvöfalt meðlag. Að ég væri að bjarga honum með því að vera hjá honum. Önnur börn voru farin að taka eftir því að við pabbi vorum að spila og kölluðu okkur spilafíkla þegar ég sá þau í skólanum.“
Lögð í einelti og lamin
Sigríður segir að allt lífið hafi snúist í kringum spilakassa í barnæskunni.
„Við fórum stundum á kvöldin í sjoppuna, keyptum nammi með myndinni sem við ætluðum að horfa á og svo var spilað í kassanum. Ef pabbi tapaði þá varð ekkert úr kvöldinu en þegar hann vann þá voru þetta með skemmtilegustu kvöldunum og við pabbi gátum setið hlæjandi yfir bíómynd og rætt það hvað við vorum heppin. Þegar pabbi fór að spila án mín varð ég ótrúlega reið og ég man eftir nokkrum skiptum þar sem ég gekk um fimm til sjö kílómetra niður í bæ að leita að honum,“ segir Sigríður og rifjar upp eina sára minningu sem situr í henni.
„Ég var mikið ein sem barn og var lögð í mikið einelti og ástandið á heimilinu var ekki að gera hlutina betri. Mér gekk því mjög illa í skóla og einn daginn sagði pabbi við mig að ef ég stæði mig vel á næsta prófi og fengi 7 þá mætti ég velja mér einn geisladisk til að kaupa. Ég man hvað ég lagði mikið á mig og var svo í skýjunum yfir því að ná 8 í prófinu. Pabbi var svo ánægður og við fórum strax af stað til að kaupa geisladiskinn, en hann vildi koma við í Gullnámunni á Hlemmi fyrst. Þessi gleði hvarf fljótt þar sem hann var orðinn brjálaður yfir því að hann var að tapa peningum. Ég stóð þarna og grátbað pabba minn um að hætta að spila. Sagði að ég gæti verið búin að kaupa sjö geisladiska fyrir peninginn sem hann var búinn að eyða. Á endanum sagði pabbi við mig: „Sorrí, það eru ekki til peningar“. Ég man eftir reiðinni sem greip mig þennan dag. Mér fannst ég hafa verið illa svikin.“
Í framhaldinu ákvað Sigríður að opna sig um ástandið heima fyrir.
„Ég opnaði mig um þetta við skólanámsráðgjafa og bað hana um að segja engum. Einhverjum dögum seinna kallaði hún á mig og þar sat pabbi. Ráðgjafinn sagði við mig að hún væri búin að tala við pabba minn og að hann lofaði að hætta að spila. Um leið og við komum heim var ég lamin í klessu fyrir að vera að bulla svona hluti við annað fólk.“
Grét sig í svefn
Það er sárt fyrir Sigríði að rifja upp barnæskuna en telur mikilvægt fyrir fólk að vita við hvers kyns óöryggi og vanrækslu börn spilafíkla búa.
„Þetta er endalaus rússíbani. Hvernig skapi verður hann í í dag? Hvað má ég segja í dag? Öskrar hann á mig út af peningaáhyggjum? Mun hann kannski leggja hendur á mig? Ég vil koma með í spilakassann en samt ekki. Ég hata þessa kassa en samt þarf ég þá! Af hverju getur ekki einhver tekið þá í burtu? Ég vil fá pabba minn aftur. Ég vil ekki velja lengur þegar pabbi fær bónusleik því hann verður alltaf reiður þegar ég vel vitlaust. En ef ég segi nei við hann og hann velur vitlaust að þá er það líka mér að kenna. Ef við myndum vinna þann stóra yrði allt í lagi. Þessar hugsanir fóru í gegnum hausinn á mér á hverju kvöldi á meðan ég grét mig í svefn.“