Opnun spilakassa var ofarlega á forgangslista sóttvarnalæknis yfir starfsemi sem hann lagði til og stjórnvöld samþykktu að fengju að opna að nýju, þrátt fyrir að Covid-19 geisi enn. Þessar breytingar voru kynntar sem varfærnar tilslakanir á gildandi sóttvarnareglum.
Þorri almennings var í skýjunum þegar tilkynnt var um hinar nýju varfærnu tilslakanir. Sjónvarpsstöðvar sýndu viðtöl við prest, kráareiganda, eiganda líkamsræktarstöðvar og neytendur og svo var að sjá að almenn ánægja ríkti með tilslakanirnar hvað flesta þætti varðaði. Greinilegt er að margir hafa saknað þess að hafa ekki getað farið í ræktina, fylgt ástvinum sínum eða vinum til grafar eða sest niður á veitingastöðum og krám til að eiga notalega stund með vinum og ættingjum.
Söknuður neytenda eftir ýmissi þjónustu undanfarna mánuði hefur verið mikill og höfum við flest upplifað hann í einhverju formi. Spilakassar eru ekki þar á meðal. Hér stendur hnífurinn í kúnni. Neytendur, við almenningur, hafa beðið með óþreyju eftir að ýmis þjónusta, sem við teljum nauðsynlega eða mikilvæga, verði í boði aftur. Því er öfugt farið með neytendur spilakassa. Þeir hafa lifað í ótta um að þeir opni á ný, sem nú er að verða raunin.
Höfum við heyrt einhvern kalla eftir að nauðsynlegt sé að opna spilakassana? Nei, þvert á móti! Spilafíklar, einu neytendur spilakassanna, og ástvinir þeirra hafa ákallað yfirvöld og biðlað til þeirra að opna spilakassana ekki á ný. Helst vilja þeir að spilakassarnir verði lokaðir til frambúðar.
Hver þrýstir á að spilakassar verði opnaðir? Tók sóttvarnalæknir upp á því upp á sitt eindæmi að leggja opnun þeirra til og vel að merkja á meðan margt annað sem almenningi finnst mikilvægt til að lifa eðlilegu lífi verður enn ýmist lokað eða óheimilt að gera? Eða var það landlæknir? Almannavarnir, nú eða heilbrigðisráðherra? Rekstraraðilar spilakassa? Rauði Kross Íslands? Landsbjörg? Háskóli Íslands?
Erfitt er að sjá hvað býr að baki þessari ákvörðun – ekki er það ákall frá neytendum. Varla er opnun spilakassa nauðsynlegur hluti varfærinna tilslakana. Því spyrjum við framangreinda aðila eftirfarandi spurninga:
* Af hverju er opnun spilakassa forgangsatriði í varfærnum tilslökunum á gildandi sóttvarnareglum, eins og raun ber vitni?
* Með hvaða rökum var sú niðurstaða fengin að nauðsynlegt væri að opna spilakassa á ný á þessum tímapunkti?
* Hverjir voru hafðir til ráðagerðar þegar nauðsyn opnunar spilakassa var metin?
* Var rætt við rekstraraðila spilakassa í þessu sambandi? Var rætt við spilafíkla og eða samtök þeirra?
* Var hlustað á þær miklu hetjur sem hafa stigið fram og lýst reynslu sinni af spilakössum og hafa biðlað til stjórnvalda um að loka þeim til frambúðar?
* Þrýstu rekstraraðilar spilakassa á opnun þeirra?
* Er það ykkar mat að opnun spilakassa sé nauðsynleg, í miðjum heimsfaraldri banvæns smitsjúkdóms?
Skoðanakönnun sem framkvæmd var af Gallup og niðurstöður voru kynntar í maí 2020, sýna að 86% íslensku þjóðarinnar vill að spilakössum verði lokað til frambúðar – neytendur þeirra eru spilafíklar og engir aðrir. Þeir hafa reynt að ná eyrum ykkar. Hvers vegna hlustið þið ekki á fórnarlömb spilakassanna – sem rétt væri að kalla spilavíti?
Höfundur er formaður SÁS.